Laxeldi: hættan á erfðablöndun að líða hjá?

Kvíar Fjarðalax.

Í norskri rannsókn sem kom út síðastliðið haust kemur fram að mögulegt er að rækta lax þannig að úr honum hverfi eiginleikinn til þess að ganga aftur upp í ferskvatnsár. Gangi það eftir verður engin hætta á erfðablöndum milli eldislax og villts lax. Það hefur verið ein helsta ástæða andstöðu við laxeldi bæði hér á landi og í Noregi þar sem blöndunin er talin spilla villta laxinum og hin upprunalegi stofn geti horfið.

Rannsóknin var samstarfsverkefni þriggja norskra rannsóknar- og vísindastofnana undir forystu NTNU – Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet. Rannsóknin hófst 1.2. 2017 og lauk 1.9. 2019. Kostnaðurinn var um 42 milljónir íslenskra króna og var greiddur af Rannsóknarsjóði sjávarútvegsins.

Stig William Omholt frá NTNU leiddi rannsóknarhópinn og aðrir í hópnum voru Laila Berg, Kjetil Hindar og Sigbjörn Lien.

Tölur eru til um  það í Noregi að aðeins hluti af eldislöxum sem sleppa úr kvíum leitar upp í árnar. Fram kemur í skýrslunni að um 6.000 laxar á ári fari upp í árnar af um 15.000 til 910.000 löxum sem sleppi og að þeim fer fækkandi. Ein möguleg skýring á því að ekki fleiri laxar leiti upp í árnar er að ræktunin á eldislaxinum hafi áhrif á þennan eiginleika og bent á að komnar eru 12 – 15 kynslóðir af eldislöxum frá því að eldið hófst af alvöru.

Á Íslandi hefur Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við háskólann á Hólum haldið því fram að þróunarkenning Darwins sem kveður á um að hæfustu einstaklingarnir lifa af gildi um laxeldið. Eldislaxinn missi með tímanum hæfnina til að spjara sig í villtri náttúru og verður undir í samkeppninni við villta laxinn. Því verði það örlög eldislax sem sleppur að drepast fljótlega í sjó.

„Hæfni eldislaxa til að komast af í villtri náttúru er greinilega stórlega skert. Þess vegna er algerlega órökrétt að álykta að eldislaxar útrými villtum laxastofnum eða umbreyti erfðasamsetningu villtra laxastofna í þá átt að erfðasamsetning villta stofnsins verði líkari erfðasamsetningu eldisstofnsins. Náttúruvalið hættir ekki að velja út þá hæfustu og þeir hafa yfirburði sem aðlagaðir eru að hverju því umhverfi sem hentar.“

Þetta gæti skýrt að stór hluti sleppilax og hlutur sem fer stækkandi leitar ekki upp í ferskvatnsár.

Í norsku rannsókninn var athugað hvort væri erfðafræðilegur munur á eldislaxinum sem slapp og gekk upp í ár og eldislaxinum í kvíunum.

Tekin voru sýni úr 2000 eldislöxum sem gengu upp í ár og voru veiddir þar og þau borin saman við sýni úr 800 eldislöxum teknum úr kvíum helstu eldisfyrirtækja Noregs. Síðan var einnig borið saman við sýni úr 1000 villtum löxum veiddum í 54 laxveiðiám.

Niðurstaðan var að það var skýr erfðafræðilegur munur á eldislöxunum sem sluppu og gengu upp í árnar og eldislöxunum í kvíunum. Erfðafræðilegi munurinn getur verið tengdur líffræðilegum þáttum sem hafa áhrif á hæfni lax til að ganga í ferskt vatn.

Það sem merkilegt var að sleppilaxinn sem gekk upp í árnar  reyndist erfðafræðilega líkari villtum laxi en eldislaxi.

Það segir í skýrslunni að niðurstöðurnar skjóti stoðum undir kenningar um að ræktunin dragi úr hæfni lax til að ganga aftur í ferskt vatn.

Af þessu má draga þá ályktun að með hverri nýrri kynslóð af eldislax leiti færri sleppilaxar upp í árnar. Hættan á erfðablöndun við villta laxinn minnkar þá að sama skapi.

Blaðamaðurinn Jan Arve Gjövik á Fiskeribladed undrast þá þögn sem hefur verið um niðurstöður skýrslunnar og segir svo virðist sem enginn hafi gert sér grein fyrir stóru tíðindunum sem rannsóknin dró fram. Erfðablöndun hafi að mati vísindaráðs um laxeldi verið mesta ógnin af laxeldinu en nú sé sú hætta að hverfa segir Gjövik. Hann telur að eldisræktunin sé þegar búin að leysa þetta vandamál og segir að samkvæmt opinberum tölum um göngu eldislax í ár hafi orðið stórfelld fækkun frá 2014 og birtir þessa töflu því til staðfestingar.

 

Um niðurstöðu skýrslunnar segir Ólafur Sigurgeirsson að hún merki að tilteknar arfgerðir séu líklegri til að komast af í villtri náttúru en aðrar og að kynbæturnar eru að gera eldislaxinn æxlunarlega einangraðan við villtan lax og sennilega sé hægt að kynbæta enn hraðar í þá átt með nútíma kynbótaaðferðum.

-k

DEILA