Landsnet tefur ekki Hvalárvirkjun

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets segir það ekki rétt að Landsnet  tefji framgang Hvalárvirkjunar. Lögum samkvæmt eigi Landsnet að sinna þörfum viðskiptavina fyrirtækisins og hvorki tefja áform þeirra né vera á undan þeim. Í þessi tilviki hafi framvinda áforma um tengingu Hvalárvirkjunar  við meginflutningskerfið verið í takt við áætlun Vesturverks ehf um uppbyggingu virkjunarinnar. Landsnet hafi athugað hvernig best verði komið á tengingu og fyrir liggi tillaga um tengivirki í Miðdal áleiðis upp á Steingrímsfjarðarheiði.

Þá sé Landsnet að vinna samkvæmt tilmælum frá ríkisstjórninni um flýtingu framkvæmda og uppi eru áform um framkvæmdir á Vestfjörðum sem eru til þess að auka afhendingaröryggi rafmagns í fjórðungnum.

Guðmundur Ingi segir að Hvalárvirkjun sé vænlegur kostur með tilliti til afhendingaröryggis og reyndar einnig aðrir  kostir á svæðinu. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu auki öryggið. Aðspurður um kostnað við tengipunktinn í Djúpinu segir Guðmundur Ingi að tekjur frá Hvalárvirkjun og öðrum virkjunum sem kunna að nota tengivirkið standi undir kostnaðinum.

Meðal verkefna sem eru í undirbúningi og munu auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum nefnir Guðmundur Ingi Ásmundsson fyrst nýtt tengivirki í Breiðadal sem verði yfirbyggt og rafstreng í gegnum Dýrafjarðargöng og áður hafi verið byggð varaaflsstöð í Bolungavík. Þá sé verið að vinna að hringtengingu bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum.

Stórnotendur viðkvæmir fyrir flutningskostnaði

Guðmundur var sérstaklega spurður að endurbótum á Vesturlínu til að tryggja flutning raforku inn á svæðið og vísaði hann þá á framangreind áform Landsnets og að aukin raforkuframleiðsla á svæðinu bætti afhendingaröryggið.

Hann var þá spurður hvort stórir eigendur að Landsneti eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur legðust gegn nýrri eða endurbættri Vesturlínu vegna mikils kostnaðar en slíkur kostnaður er lagður á alla sem nota Landsnet. Svaraði hann því til að stórnotendur væru viðkvæmir fyrir orkuverði og flutningskostnaði. Veittu þeir Landsneti mikið aðhald á gjaldskrá.