Ísafjörður: knatthús í undirbúningi

Bæjaryfirvöldí Ísafjarðarbæ vinna þessa dagana að því að taka ákvörðun um byggingu 50×70 metra knatthúss á Ísafirði. Bæjarráðið fól á þriðjudaginn  bæjarstjóra að setja upp heildarkostnaðaráætlun vegna verkefnins, og drög að samningi að byggingu knattspyrnuhúss, til framlagningar á næsta fundi bæjarráðs, þriðjudaginn 2. júní 2020. Bæjarstjórnarfundur verður í dag þar sem þetta mál verður til umræðu.

Forsendur eru þessar:

Fótboltahús verði á Torfnesi. Umrætt hús skal vera 50×70 m að innanmáli eða 3500 fermetrar. Gert verður ráð fyrir að löglegur völlur fyrir 8 manna bolta verði í húsi ásamt 3 metra öryggissvæði. Hluti af öryggissvæði verður nýttur sem göngubraut fyrir eldri borgara. Uppgefinn hámarksfjöldi fólks í húsi er 300 manns. Reikna skal með að á einhverjum viðburðum verði allt að 1500 manns í húsinu. Því verður lagt til að neyðarútgangar verði hannaðir fyrir 1500 manns en loftræsing fyrir hámark 300 manns.

Útboð verksins á EES svæðinu leiddi ekki til niðurstöðu. Ekkert tilboð barst frá  íslensku fyrirtæki en norska fyrirtækið Hugaas Entreprenör hefur gert tilboð.

Í minnisblaði Verkís sem lagt var fyrir bæjarráð kemur fram að kostnaðaráætlun er um 600 milljónir króna eða 168 þúsund krónur hver fermetri. Óvissumörk eru 20%. Búast má við niðurstöðu á næsta fundi bæjarráðs.

DEILA