Ísafjarðarbær: 24,5 sumarstörf fyrir námsmenn

Ísafjarðarbær  sendi inn umsókn fyrir 28 störfum til Vinnumálastofnunar og fékk vilyrði fyrir 15 störfum.  Þetta kemur fram í minnisblaði Baldurs Inga Jónassonar, mannauðsstjóra um sumarstörf fyrir námsmenn – átaksverkefni sumarið 2020.

Ætlunin er að Ísafjarðarbær auglýsi 24,5 störf  til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir sumarstörfum hjá námsmönnum. Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna átaksins nemur að hámarki grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta sem er 321.356 kr. miðað við fullt starf.

Störfin eru hluti af atvinnuátaki sveitarfélagsins í samvinnu við Vinnumálastofnun og eru eingöngu ætlað námsmönnum búsettum í sveitarfélaginu, 18 ára og eldri sem eru á milli anna í námi.
Ráðningartími er almennt að hámarki tveir mánuðir og fellur innan tímabilsins 01.06.20 – 31.08.20. Um er að ræða 100% störf, utan 50% starfs gæslumanns á safni.

Störfin sem auglýst verða eru:

Starfsmaður í þjónustu, stafrænum og grænum lausnum á skrifstofu stjórnsýslu- og fjármála – 1 stöðugildi.

Skrifstofustarf á mannauðssviði – 1 stöðugildi.

Skrifstofustarf á velferðarsviði – 1 stöðugildi.
Umsjónarmaður íþróttavalla, Torfnesi – 1 stöðugildi.

Sumarstarfsmenn við fegrun og snyrtingu umhverfis – 8 stöðugildi.

Skapandi sumarstörf – 8 stöðugildi.

Sumarstarfsmenn á leikskóla á Ísafirði – 4 stöðugildi.

Gæslumaður á safni – 1/2 stöðugildi á Byggðasafninu.

Umsóknarfrestur um störfin er til og með 27. maí 2020.