HVEST: heimsóknarbanni aflétt á næstunni

Árborg Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftir því sem fækkar virkum smitum covid19 styttist í afléttingu heimsóknarbanns á deildum og hjúkrunarheimilum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þar sem norðursvæði Vestfjarða kom verr út úr faraldrinum verða tilslakanir viku seinna á ferðinni þar en á suðursvæði.

Heimsóknarbanni verður aflétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og ef allt gengur vel segir á vefsíðu stofnunarinnar.  Þá er íbúum heimilt að fara í bílferðir, heimsóknir og sinna afþreyingu utan heimilis. Tekið er mið af smitum í samfélaginu og fleiri þáttum við frekari ákvarðanir.

Patreksfjörður 2. júní

Á Patreksfirði verður heimsóknarbanni aflétt að fullu þann 2. júní. Fram að þeim tíma eru heimsóknir takmarkaðar og eru aðstandendur hvattir til að hafa samráð sín á milli með heimsóknir, ekki þarf að panta sérstaklega tíma. Frekari reglur og ábendingar hafa verið sendar aðstandendum í tölvupósti.

Norðanverðir Vestfirðir 8. júní
Á norðursvæði Vestfjarða; bráðadeildinni á Ísafirði og hjúkrunarheimilunum Bergi, Tjörn á Þingeyri og Eyri á Ísafirði, verður heimsóknarbanni aflétt að fullu frá og með 8. júní. Vikuna 1. – 7. júní eru þrjá heimsóknir leyfðar til íbúa. Um þær heimsóknir gilda ákveðnar reglur sem sendar hafa verið til aðstandenda í tölvupósti.

Áfram gildir samt sú regla að alls ekki á að koma í heimsókn ef viðkomandi:

1. er í sóttkví
2. er í einangrun eða er að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
3.hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift
4. er með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, skert bragð og lyktarskyn o.fl.)
5. er að koma erlendis frá, þurfa að líða amk 2 vikur áður en komið er í heimsókn

DEILA