Hvalárvirkjun: 5 kærum vísað frá

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði fimm kærum frá á föstudaginn var. Um var að ræða kærur frá einstaklingum og fasteignaeigendum á Eyri í Ingólfsfirði, Seljanesi og Drangavík þar sem kært var framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknum vegna Hvalárvirkjunar og deiliskipulag þeirra vegna. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að kærendur ættu  ekki  lögvarða hagsmuni í málinu.

Framkvæmdirnar og rannsóknirnar  sem kærðar voru eru allar fyrirhugaðar í landi Ófeigsfjarðar og eru minni háttar þannig að það var mat nefndarinnar að þær röskuðu ekki grenndarhagsmunum.

Í úrskurði nefndarinnar segir að ágreiningur sem gerður hefur verið um mörk milli jarðanna Drangavíkur og Ófeigsfjarðar verði ekki útkljáður fyrir úrskurðarnefndinni heldur verði að bera undir dómstóla. Nefndin segir að því verði að telja opinber gögn, svo sem skipulagsáætlun sem sýnir landamerkin, rétt hvað það varðar.

 

Eftir standa þá nú tvö kærumál óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni um sama kæruefni og eru þau frá félagasamtökum svo sem  Landvernd og Ófeig. Um þau gilda aðrar reglur en einstaklinga varðandi aðild að máli.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, sem var kærður í málinu,  sagði í samtali við Bæjarins besta að þau væru ósköp ánægð með að þessi atrði væru nú farin út af borðinu.