Hreinni Hornstrandir 2020

Í sjöunda sinn nú í sumar fer vaskur hópur til hreinsunarstarfa á Hornströndum.

Að sögn Gauta Geirssonar forsvarsmanns hópsins hafa á undanförnum sex árum verið hreinsuð af svæðinu um 33,8 tonn af rusli og af því er um 90% plast.

Þegar ferðin í sumar hefur verið farin er búið að fara yfir það svæði sem mest rusl var talið á. Næsta sumar er svo áætlað að fara á svæði sem áður hefur verið hreinsað.

Áætlað er að fara í árlega hreinsunarferð á Hornstrandir helgina 19-21 júní með um 20 manna hóp.
Planið er að sigla fyrripart föstudagsins 19. júní áleiðis í átt til Smiðjuvíkur og labbað yrði á föstudeginum síðasta spölin og jafnvel byrjað að hreinsa.

Þátttakendur þurfa að taka með sér tjald og mat fyrir tvo daga en gist verður í Smiðjuvík og á Bjarnarnesi.
Á laugardeginum og sunnudeginum verður unnið sleitulaust við hreinsun í Smiðjuvík, Hrollaugsvík og Bjarnarnesi og þurfa því þátttakendur að vera vant útivistarfólk sem er til í hörku vinnu.

Þegar búið er að hreinsa upp á sunnudeginum verður siglt til hafnar á Ísafirði en áætluð heimkoma er seinnipartinn.
Eðli málsins samkvæmt komast færri að en vilja en við óskum eftir umsóknum sem sendast á upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar á netfangið: tinnaolafs@isafjordur.is

DEILA