Háskólasetrið: Opinn fyrirlestur: Náttúrutengd endurhæfing

Undanfarin ár hafa komið fram sannfærandi gögn um að dvöl og iðja í náttúrunni sé gagnleg heilsu og vellíðan og að náttúrutengd endurhæfing (NTE) skili góðum árangri í starfsendurhæfingu. Sérstaklega þegar um er að ræða einstaklinga með þunglyndi, kvíða, streitutengdan vanda og áfallastreitu. Þrátt fyrir nær óheft aðgengi að óspilltri náttúru hefur NTE ekki verið mikið stunduð á Íslandi.

Í erindinu mun Harpa Lind Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi og forstöðumaður Starfsendurhæfingar Vestfjarða, kynna rannsókn sem hafði þann tilgang að vera fyrsta skrefið í þróun gagnreynds náttúrutengds endurhæfingarúrræðis sem innleitt verður í starfsemi starfsendurhæfingarstöðvar (SES). Rannsóknin er meistaraverkefni Hörpu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og er frekari upplýsingar um rannsóknina og niðurstöður hennar er að finna hér að neðan.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 4 í Háskólasetri Vestfjarða og er opinn almenningi, á meðan húsrúm leyfir. Gert er ráð fyrir að erindið taki um 15 mínútur í flutningi, en svo verður tími fyrir spurningar og spjall. Erindið er á dagskrá Sjónaukans, árlegrar ráðstefnu heilbrigðisvísindasviðs HA sem vegna aðstæðna fer nú fram á Netinu.

Aðferð: Rannsóknin er þátttökurannsókn og þátttakendur einstaklingar sem stunduðu endurhæfingu í SES og völdu að taka þátt. Gagnasöfnun stóð yfir í heilt ár. Valdir voru sjö náttúrustaðir í nágrenni SES og eiginleikar þeirra metnir með notkun matslista. Einnig var stunduð náttúrutengd iðja (NTI) og metið hversu þýðingarmikið og gefandi þátttakendur upplifðu að taka þátt. Rýnihópa- og óformleg viðtöl, skráning minnispunkta, myndataka og ígrundun í gegnum allt ferlið, var mikilvægur þáttur gagnaöflunar.

Niðurstöður: Allir náttúrustaðirnir höfðu eiginleika heilsueflandi umhverfis, skv. kenningunni um endurheimt athygli og skilgreiningu á átta skynjuðum víddum umhverfisins. Fjörur og svæði við sjó aðeins meiri en skógræktir og listigarður í bæ hafði minnstu heilsueflandi eiginleikana. Marktækur munur var á 5 af 6 þáttum hugarástands fyrir og eftir dvölina á náttúrustöðunum. Þátttakendur upplifðu allar gerðir iðju þýðingarmikilar og gefandi; tómstundaiðju, garðyrkju og leik mest, en nytjar og inniræktun þar á eftir.

Ályktanir: Náttúrustaðirnir hentuðu sem vettvangur fyrir NTE og dvöl á þeim hafði jákvæð áhrif á hugarástand. Iðja úti í náttúrunni þótti meira þýðingarmikil og gefandi heldur en NTI stunduð innandyra. Niðurstöður bentu til þess að jákvætt sé að vera eins mikið og hægt er úti í náttúrunni og stunda iðju án krafna um afurð eða árangur. Góð upplifun af tómstundum og leik gæti þýtt að sú iðja auki jafnvægi í daglegu lífi og gefi tækifæri til ástundunar iðju sem gjarnan gleymist eða er ekki forgangsraðað í lífi fólks.

DEILA