Hafís gæti færst nær landi

Skýjað hefur verið á Grænlandssundi í gær og fyrra dag og lítið sem ekkert hefur sést til hafíssins á hefðbundnum tunglmyndum (sýnilegt og innrautt ljós).
Hafískort var teiknað eftir radarmælingum úr gervitungli (SAR).

Heil lína á meðfylgjandi mynd sýnir meginjaðarinn skv. gögnum frá því í gær (4. maí) og mældist meginísröndin í um 37 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi þar sem hún var næst landi.

Tekið skal fram að stakir jakar eða rastir geta verið handan meginlínunnar.
Strikalínan á meðflygjandi mynd sýnir jaðarinn samkvæmt gögnum frá því í fyrradag. Talsverð hreyfing er á ísnum milli daga.
Í gær var hvöss suðvestanátt á Grænlandssundi og í dag og á morgun er áttin áfram suðvestlæg, en vindhraði minni.

Hafísinn gæti því borist nær landi af völdum vinds.

Frá fimmtudegi og til sunnudags er spáð breytilegri vindátt á hafíssvæðinu: norðaustanátt um tíma, en einnig verður suðvestanátt við lýði.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!