Grásleppuveiðar bannaðar fyrirvaralaust

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra stöðvaði grásleppuveiðar fyrirvaralaust síðasta fimmtudag. Var útgerðum gert að hafa dregið net sín úr sjó á sunnudag, í gær.

Veiðarnar hófust 10. mars og hefur aflinn verið óvenjulega góður. Stöðvun veiðanna er rökstudd  með því að hann nálgaðist ráðleggingu Hafrannsóknarstofnunar.  Grásleppuveiðar hefjast á ólíkum tíma um landið vegna gönguhegðunar grásleppunnar. Grásleppan kemru fyrst að á norðausturhorni landsins og mun síðar á vestanverðu landinu. þeir sem fyrst hófu veiðar, á Langanesinu hafa getað fullnýtt dagana 44 sem hver bátar má vera á veiðum. Að sögn heimildamanns Bæjarins besta hefur veiðin verið sérstaklega góð fyrir austan og hefur farið upp í 8 tonn á dag.

Sigurgeir Steinar Þórarinsson, Bolungavík var byrjaður á grásleppunni og segist hafa verið búinn að nýta 15 daga.  Hann er mjög ósáttur við ákvörðun ráðherra og telur að ráðherrann hafi gert þetta til þess að reka fleyg í raðir grásleppusjómanna og auka líkur á því að þeir fallist á að kvótasetja grálseppuveiðarnar. Þá vekur Sigurgeir athygli á því að það hafi strax stefnt í mokveiði en ráðherrann hafi ekki gefið nein merki um snemmbúna stöðvun.

Ráðherrann vildi setja veiðarnar í kvóta fyrr í vetur en mikil andstaða við þau áform meðal þeirra sem gera út á grásleppu stöðvaði þau áform. Sigurgeir bendir á að undanfarin tvö ár hafi lítil sem engin loðnuveiði verið og segir það skipta máli um grásleppuveiðina þar sem mikið af grásleppu veiðist í loðnutrollin. Því komi það ekki á óvart að mikið veiðist af grásleppu nú.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda tekur undir þetta og segir að margir grásleppusjómenn hallist að þessari skýringu.

Orð og athafnir fara ekki saman

Ketill Elíasson, formaður Eldingar svæðisfélags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum  var einnig mjög óhress með þessa ákvörðun. Hann segir ömurlegt að horfa upp á að ráðherrann stöðvi fyrirvaralaust starfsemi lítilla fyrirtækja, sem grásleppuútgerð sannanlega er og að það sé í engu samræmi við margítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki. Orð og athafnir fari greinilega ekki saman sagði Ketill Elíasson.