Flugskóli á Ísafirði í sumar

Róbert og Birna Berg undir stýri. Myndir: aðsendar.

Flugskólinn ifly hefur hafið starfsemi á Ísafirði. Það eru þau Róbert Ketilsson og Birna Borg Gunnarsdóttir, sem bæði eru flugkennarar, sem reka skólann og munu bjóða upp á flugkennslu.

Róbert segir að þau hafi starfað í mörg ár við flugkennslu í Reykjavík en það hafi lengi blundað í þeim að dvelja við Ísafjarðardjúp þar sem þau bæði eiga rætur. Nú hafi gefist tækifæri og eru þau komin vestur og búa í Hnífsdal í sumar og ef til vill fram á haustið.

Opnið er fyrir skráningu í einkaflugmannsnámið á ifly.is og verður hægt að skrá sig fram til 5. júní.

Fyrirkomulagið verður blanda af fjarnámi og staðnámi, eða fjarnám með vikulegum staðarlotum í kennslustofu, þar sem kennarar aðstoða nemendur með námið og unnið er í verkefnum.

Áætlað er að námskeiðið taki 8 vikur og ljúki 7. ágúst. Við útskrift hlýtur nemandinn bóklegt einkaflugmannspróf.

Birna á ekki langt að sækja flugáhugann þar sem hún er barnabarn Harðar Guðmundssonar og Jónínu Guðmundsdóttur eigenda Flugfélagsins Ernis ehf. Róbert á líka ættir að rekja til Bolungavíkur en Elías Ketilsson fyrrverandi skipstjóri er ömmubróðir hans.

DEILA