Fiskeldi: Fjórði stærsti mánuðurinn frá upphafi

Kvíar á Skutulsfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.739 milljónum króna í mars. Þetta er fjórði stærsti mánuður frá upphafi á kvarða útflutningsverðmæta, hvort sem mælt er í krónum eða erlendri mynt. Þetta er um 27% aukning í krónum talið frá mars í fyrra. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt út af veikingu krónunnar en engu að síðu myndarleg, eða rúm 17%. Magnaukningin er svipuð, eða tæp 18%.

Athygli er vakin á þessu í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

fyrstu 3 mánuðir: 8,2 milljarðar króna

Sé tekið mið af fyrstu þremur mánuðum ársins, er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 8,2 milljarða króna. Það er 26% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 21% í erlendri mynt. Þar af er útflutningsverðmæti á eldislaxi komið í rúma 6,4 milljarða króna samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili í fyrra.

Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, er komið í um 1,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Talsverður samdráttur hefur verið á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, en verðmæti þeirra á fyrsta ársfjórðungi nam 123 milljónum króna samanborið við 353 milljónir á sama tímabili í fyrra.

DEILA