Dýrafjarðargöng – Framvinda í vikum 15 til 18

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 15 til 18 við vinnu Dýrafjarðarganga.

Klárað var að steypa undirstöður fyrir fjarskiptamastur og fjarskiptahús í Arnarfirði. Er þar með allri steypuvinnu við mannvirki lokið. Enn á eftir að steypa vegþveranir fyrir ídráttarrör í tveimur útskotum. Steypuvinnu í verkinu er þó alls ekki lokið því enn er eftir að steypa stétt meðfram öllum veginum í göngunum frá kantsteini og út í vegg.

Klárað var að sprautusteypa yfir vatnsklæðingar og er vinnu við vatnsvarnir þar með lokið.

Haldið var áfram að keyra fyllingar og neðra burðarlag í veginn í göngunum. Er nú búið að keyra neðra burðarlag í nánast öll göngin og einungis stuttur kafli eftir Dýrafjarðarmeginn ásamt báðum vegskálunum. Haldið var áfram með að setja upp festingar fyrir skilti í göngunum.

 

Haldið var áfram að leggja ídráttarrör fyrir rafmagn og stýristrengi meðfram hægri vegöxl og í tæknirýmin. Búið er að draga út 11 kV jarðstreng milli allra tæknirýma í göngunum og eingöngu eftir að leggja 11 kV jarðstrengi frá tæknirýmunum sem eru næst munnunum og út úr göngunum. Haldið var áfram með að grafa skurð fyrir 132 kV jarðstreng í vinstri vegöxl. Búið er að draga út þrjá hluta af sex af 132 kV jarðstrengnum. Vinna hélt áfram við uppsetningu á búnaði í tæknirýmum og uppsetningu á festingum fyrir strengstiga og strengstiganum sjálfum sem mun liggja eftir endilöngum göngunum og í útskotum.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá rúllur eftir skurði sem 132 kV strengurinn var dreginn eftir, 132 kV kefli á útdráttarvagni,  fleygun fyrir tengibrunni við neyðarútskot, útdrátt á 132 kV jarðstreng, uppsetningu á skiltafestingu og ídráttarröri að skiltinu, tengibrunn þar sem 132 kV jarðstrengurinn var tengdur saman og undirstöður fyrir fjarskiptamastur og fjarskiptahús í Arnarfirði.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!