Dragnótabátur spillir handfæraveiðum á Patreksfjarðarflóa

Siglingaferill Sigurfara GK í síðasta róðri.

Undanfarið hefur dragótabáturinn Sigurfari GK stundað dragnótaveiðar í Patreksfjarðarflóa. hefur aflinn einkum verið steinbítur eða um 100 tonn í síðustu 4 róðrum og um 20 tonn af þorksi. Aflanum hefur verið landað í Sandgerði, Þorlákshöfn og á Patreksfirði. Fjölmargir smábátar stundar handfæraveiðar á þessum slóðum og segir Einar Helgason, formaður smábátarfélagsins Krókur á Patreksfirði að veiðar Sigurfara, sem er um 300 tonna skip, hafi truflað veiðar smábáta sem veiða í flóanum. Hægfara bátar eru þar á veiðum og svo þegar verri veðrin eru þá er smábátaflotinn þar.

Snurvoðinni fylgi að það tekur fyrir veiðar krókabátanna og þorskur hverfur af slóðinni. Að sögn Einars er töluverð óánægja meðal smábátasjómanna. Einar segir að hingað til hafi dragnótaveiðar aðeins verið heimilaðar þeim sem höfðu svæðisbundið leyfi á þessum slóðum og að það hefðu eingöngu verið minni snurvoðarbátar á veiðum. Það hefði ekki truflað veiðar smábátanna í líkingu við ástandið nú.

Breytingar í andstöðu við Vestfirðinga

Á síðasta ári sameinaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra fjórar reglugerðir um dragnótaveiðar í eina sem hver um sig heimilaði dragnótaveiðar innan 12 mílna á ákveðnum svæðum. Ein þeirra var um bann við dragnótarveiðum í fjörðum Vestfjarða og út af Ströndum. Eftir breytinguna gildir leyfi til dragnótaveiða innan 12 mílna um land allt í stað þess að vera bundið við tiltekið svæði.

Í umsögnum sem bárust þá vildu allir Vestfirðingarnir, sem sendu inn umsókn, hafa óbreytt fyrirkomulag en ráðherrann ákvað að virða þær að vettugi.

Framangreindar breytingar voru gerðar í samráði og samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtök dragnótarmanna.

Tekið upp á Alþingi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins tók málið upp á Alþingi í gær og benti hún á að smábátarnir á starndveiðunum væru bundnir við svæði og hefðu aðeins leyfi til veiða á einu svæði af fjórum. Spurði hún : „Hvernig stendur á því að þessir hlutir eru látnir viðgangast, að skip komi annars staðar að, risaskip sem þurrka upp firðina sem smábátaútgerðareigendur gætu annars nýtt sér, t.d. í vonskuveðrum með því að vera inni á fjörðunum sínum í stað þess að leita lengra út til að fiska?“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra svaraði því til að hann hefði „ekki verið á þeim stað að leggja bann við tilteknum veiðarfærum á tilteknum svæðum vegna þess að í grunninn er fiskveiðistjórnarkerfið gert á þann veg að menn geta sótt á sínum forsendum þann afla sem þeir hafa heimild til að taka.“ Sagði hann að  Hafrannsóknastofnun hafi dregið línur og gert tillögu til ráðuneytisins um takmörkun sókn á tilteknum hafsvæðum og ráðuneytið hafi fylgt. „En ráðuneytið hefur ekki endilega verið með bein pólitísk inngrip í fiskveiðistjórnina, eins og mér heyrist hv. þingmaður vera að kalla eftir.“

 

 

 

DEILA