Bolungavík: sundlaugin opnar á mánudaginn

Enn eitt skrefið í átt til daglegs lífs í Bolungavík verður stigið á mánudaginn. Sundlaug Bolungarvíkur opnar á ný mánudaginn 18. maí 2020 kl. 06:00.

Sundlaugin hefur verið lokuð frá 24. mars samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra nr. 243/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar frá 23. mars 2020.

Fjöldatakmörkun verður viðhöfð og tveggja metra reglan.

Í boði eru fataskiptiklefar, sundlaug, nuddpottur og vatnsrennibrautin. Önnur þjónusta Íþróttamiðstöðvarinnar Árbæjar verður ekki í boði að svo stöddu.

Gestir mega ekki koma í sund ef þeir:
a. Eru í sóttkví.
b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
c. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
d. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).

DEILA