Bolungavík: fjölgar um 100 manns vegna laxeldis

Húsnæðisáætlun Bolungavíkurkaupstaðar er komin út. Í henni kemur fram að laxeldi í Ísafjarðardjúpi muni hafa jákvæð áhrif á íbúaþróun við Djúp. Áætlunin er byggð á tillögu Hafrannsoknarstofnunar um eldi upp á 12.000 tonna hámarkslífmassa í Ísafjarðardjúpi, en ef notuð eru 400 gramma seiði megi auka hámarkslífmassa í 14.000 tonn.

Við mat á áhrifum vegna laxeldisins er stuðst við Í skýrslu KPMG frá því í september 2017, Laxeldi í Ísafjarðardjúpi – greining á áhrifum þess á efnahag og íbúaþróun, sem var meðal annars kynnt á fjölmennum íbúafundi á Ísafirði í september það ár.  Í skýrslunni eru bein störf talin vera 260 og  óbein störf 150 eða samtals 410 af 25.000 tonna ársframleiðslu.

Samkvæmt þessu eru bein og óbein störf talin verða 158 eða 183 eftir því hvort er miðað við 12.000 tonna framleiðslu eða 14.000 tonn. Íbúafjölgunin við Djúp vegna laxeldisins reiknast þá vera frá 474 til 549 manns  sem yrðu á næstu 4 – 5 árum en þá yrði fullri framleiðslugetu náð.

Miðað er við að dreifing íbúafjölgunarinnar skiptist á byggðarlögin í samræmi við núverandi stöðu og myndu 19,2% fjölgunarinnar verða í Bolungavík. Íbúafjöldinn í Bolungavík yrði þá árið 2024 orðin 1.046 -1.060.

Þessi íbúafjölgun kallar á 42 fleiri íbúðir í sveitarfélaginu en nú eru.  Þörfin er öll tilkomin vegna laxeldisins. Til þess að mæta þörfinni er gert ráð fyrir í áætluninni að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir og fá þannig 20 íbúðir og byggja 30 íbúðir í nýju hverfi, Hreggnasahverfi.