Aukum þorskveiðar

Nokkur ár í röð hefur vísitala þorskstofnsins farið lækkandi undir vökulu verndarauga Hafrannsóknastofnunar. Hér áður fyrr voru slíkar breytingar oftast skýrðar með ofveiði
en í dag virðist það ekki við hæfi þar sem stofnunin sjálf ber alla ábyrgð á veiðimagninu. Ekki vil ég heldur kalla eftir slíkum skýringum enda tel ég aðalástæðuna vera langvarandi vanveiði á þorski eins og oft hefur komið fram. Eftir 30 ára uppbyggingartilraunir Hafró,
sem kostað hafa þjóðina fjögurra til fimm milljóna tonna þorskafla og eitthvað svipað í öðrum tegundum, ætti þeim að vera orðið ljóst að öldrun þorskstofns kallar á aukna
orkuþörf alls stofnsins. Þeim mætti einnig vera orðið ljóst að vaxandi orkuþörf stofns, sem náttúran fær ekki uppfyllt, eykur orkuþörfina bak við hvert kíló ekki hlutfallslega
heldur margfaldar hana vegna vaxandi samkeppni um fæðuna. Það sem við sjáum eru afleiðingar vanrækslu við grisjun og viðbrögð stofnsins við henni.

Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands unnu það afrek nýlega að sýna þjóðinni að hægt væri að halda tveggja metra reglunni við myndatöku í gömlu höfninni í Reykjavík.
Tilefnið var samkomulag um svokallað nýtt nám í fiskifræði og veldur það mér
nokkrum áhyggjum því þessar stofnanir hafa valdið hvað mestu um þá villutrú sem nú
ríður þökum í íslenskum sjávarútvegi. Hins vegar erum við öll hluti þeirrar tegundar
sem í dag mætti kalla homo sakbitinn vegna þess að hún virðist efast um tilverurétt sinn en
tegund þessi telur rúmlega sjö þúsund milljónir einstaklinga. Ef við fengjum alla meðbræður okkar á þessari jörð í heimsókn til okkar litla lands gæti hver fyrir sig haft
tæpa 15 fermetra til umráða. Í þessu ljósi verður afrek stofnananna ekki svo mikið og eins gott að þær setji sér markmið um metnaðarfyllri viðfangsefni í framtíðinni.

Á næstu árum þurfum við Íslendingar mikla verðmætasköpun til að fylla upp í það tjón sem
breyttar forsendur af völdum heimsfaraldurs hafa valdið okkur.
Veröldin mun þurfa á matvælum að halda og fólk þarf á vinnu að halda og ekki geta allir sest upp á hið opinbera við kjaftæði og úrtölur. Ég tel því við hæfi að gert verði hlé á
30 ára tilrauninni og tekin upp 30% aflaregla í þorski í þrjú til fimm ár.
Stofnanirnar gætu svo sameinast um að rannsaka áhrif breytingarinnar á nýliðun og annað ástand þorskstofnsins og annarra stofna eins og loðnu, rækju og humars. Á ársgrundvelli gæti þetta þýtt um 150 þúsund tonna aukna þorskveiði og fljótlega gæti orðið vöxtur í afla
fæðutegundanna líka. Það munar um minna.

Aflamarks-isminn á sér marga og valdamikla stuðningsmenn sem hafa verið duglegir að standa vörð um hagsmuni kerfisins. Þeir hafa í bland beitt kraftmiklum áróðri og
þrúgandi þögn gegn öllum efasemdaröddum. Þeir halda því fram að hornsteinn aflamarksins sé vísindaleg ráðgjöf. Ég þekki marga aflamarks-ista og veit að þeir eru
ágætis fólk eins og vísindamenn eru reyndar líka. Þess vegna skora ég á þá alla að sameinast um að gera ofangreinda tilraun um 30% aflareglu í þorski í þrjú til fimm ár
og fá þannig vísindalegan grundvöll til að byggja á í framtíðinni. Þetta gæti mildað höggið á efnahag þjóðarinnar og gert stjórnvöldum hennar auðveldara að takast á við verkefni sitt næstu árin.

Handþvottur og heilabrot

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi
og þögnin ein er viðeigandi svar
þar eftir stendur kaldur tómur kassi
sem keppnisvöllur hugmyndanna var
fyrst sannleikurinn beint af himni sendur
var sakfelldur og negldur upp á kross
er viturlegt að vaska sínar hendur
og vissara að þiggja engan koss.

Nú skella kerfi mannanna úr skorðum
sköpunin má verða fersk á ný
en gamli tíminn bíður undir borðum
og berst af öllum kröftum móti því
þeir vilja halda öllu sínu valdi
sem véluðu af frelsi náungans
og gæðin skulu tryggð með slíku gjaldi
að geti aldrei náð til almúgans.

Það deyr að lokum sérhver duftsins sonur
og dauða fylgir sálarinnar nekt.
Það gerist eins með karla, börn og konur
og kann að greina sakleysi frá sekt
en þau sem háðu þrautagöngu fegin
og þraukuðu við skortsins fúla fen
fá örugglega auðlegð hinum megin…
ef eitthvað er að marka Einar Ben.

Sveinbjörn Jónsson

DEILA