Auka á stuðning við garðyrkjubændur

Undir samkomulagið skrifuðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Þorgeirsson, stjórnarformaður Bændasamtaka Íslands og Helga Ragna Pálsdóttir, varaformaður Sambands garðyrkjubænda og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samninganefndar ríkisins

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sem er einn hinna fjögurra búvörusamninga.

Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkjunni með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum.

Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25%, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, meðal annars í því skyni að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu.

Auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn sem nema 200 milljónum króna á ári.
Aukningin kemur til framkvæmda strax á þessu ári. Þeir nýtast m.a. til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum, þróunarverkefna og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi.

Við samninginn bætist nýr flokkur beingreiðslna vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum en gúrkum, paprikum og tómötum. Heildarfjárhæð verður 37 milljónir króna á ári.

Fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verður breytt með þeim hætti að ylræktendum verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar.

DEILA