Arnarlax: hagnaður af rekstri 2019

Hagnaður af rekstri Arnarlax á síðasta ári varð 336 milljónir íslenskra króna. Afkoman batnaði um 3 milljarða króna frá 2018 þegar varð 2,6 milljarða króna tap af rekstri. Mestu munaði um verulega auknar tekjur sem komu til af 50% aukningu af sölu afurða. Tekjurnar 2019 urðu um 10,7 milljarðar króna og jukust um 4 milljarða króna frá 2018.

Þetta kemur fram í ársreikningi Arnarlax fyrir 2019.

Útgjöld hækkuðu um tæpan milljarð króna eða mun minna en tekjurnar. Framlegð frá rekstri (EBITDA)  var 2019 jákvæð um tvo og hálfan milljarð króna en hafði verið neikvæð um hálfan milljarð króna árið áður.

Bókfærðar eignir eru 20 milljarðar króna og eigið fé er tæplega helmingur af því. Fjárhagsstaðan er því sterk. Lífmassinn af laxinum sem er í eldinu er metinn á nærri 8 milljarða króna.

Laun og tengd gjöld 2019 voru um 1,5 milljarður króna og að jafnaði voru 111 starfsmenn á árinu.

Í ársreikningnum er gerð grein fyrir áhrifum af laxadauða í Hringsdal í febrúar 2020 of covid 19 faraldrinum.  Vegna aðstæðna í Hringsdal var slátrað um 2200 tonnum auk þess se drapst í kvíunum. Fjárhagslegu áhrifin eru ekki að fullu metin er talið að kostnaðurinn við aðgerðirnar hafi verið um 120 milljónir króna. Væntanlega er um að ræða mat á kostnaði við slátrunina og tengdar ráðstafanir. Fram kemur að áhrifin af laxadauðanum verði um 350 milljónir króna sem muni koma fram í lakara sjóðstreymi þessa árs.

Covid 19 hefur  gert alla flutninga á afurðunum á markað dýrari og verðin hafa lækkað. Þá var slátað upp úr  kví við Eyri til þess að draga úr áhættu á freari laxadauða. Líklegt að frysta verði meira af laxi en áður var ráðgert og það mun minnka tekjurnar.

Arnarlax slátraði 10.000 tonnum af laxi á árinu 2019 sem er nærri helmingur af öllum slátruðum laxi ársins sem var 21.000 tonn. Á þessu ári er áætlað að fyrirtækið slátri 12.000 tonnum og ársframleiðslan á landinu verði 30.000 tonn.

Arnarlax hefur leyfi fyrir framleiðslu á 25.200 tonnum á ári í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Það hefur sótt um 4.500 tonan stækkun í Arnarfirði og 10.000 tonna framleiðslu í Ísafjarðardjúpi.

Heimsframleiðslan á Atlantshafslaxi var 2,7 milljónir tonna í fyrra og jókst um 4%. Gert er ráð fyrir svipaðri aukingu á þessu ári.

Salmar í Noregi er stærsti hluthafinn í Arnarlaxi með tæplega 60% eignarhlut. Björn Hembre er forstjóri Arnarlax.

Ársreikningurinn er gerður upp í evrum og eru tölurnar í fréttinni umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við núverandi gengi.

Boðað hefur verið til aðalfundar 28. maí og verður hann fjarfundur að þessu sinni.