Arctic Fish: hagnaður og uppbygging þrátt fyrir covid-19

Það gekk vel hjá Arctic Fish á fyrstu 6 vikum þessa árs sem skilar sér í jákvæðri afkomu á fyrsta ársfjórðung 2020. Góð verð á mörkuðum, samhliða góðum framleiðsluniðurstöðum úr eldinu sjálfur sköpuðu jákvæða afkomu segir í frétt frá fyrirtækinu.

„Arctic Fish var stofnað var 2011 og hefur miklu fjármagni verið varið uppbyggingu félagsins í grunnstoðir félagsins aflað mikilvægrar þekkingar og reynslu við fiskeldið á Vestfjörðum. Hingað til hefur reksturinn verið fjárhagslega neikvæður en á fyrsta fjórðungi þessa árs varð hagnaður um 800 þúsund evrur“ segir Shiran Þórisson fjármálastjóri Arctic Fish.

Shiran Þórisson, fjármálastjóri.

Framlegð úr rekstri fyrir fjármagnsliði varð 1,6 milljón evrur eða um 230 milljónir íslenskra króna. Félagið seldi um 860 tonn af slægðum laxi á fyrsta ársfjórðungi, en auk þess seldi félagið smáseiði til annara eldisfyrirtækja.

„Þrátt fyrir háann framleiðslukostnað á þessu uppbyggingarskeiði sem fyrirtækið er að fara í gegnum, þá er ánægjulegt að ná þeim áfanga að geta skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Unnið er áfram markvisst í því að lækka framleiðslukostnað enda er hann hærri hér en í öðrum löndum þar sem  laxfiskaeldi er stundað.  Einnig má benda á að flutningskostnaður á okkar helstu markað er líka hærri en hjá samkeppnislöndum okkar.“

Shiran segir að COVID ástandið mun móta nána framtíð fyrirtækisins og því enn meiri þörf á að geta straumlínulagað reksturinn svo að framleiðslan í framtíðinni verði samkeppnishæf.

Til lengri tíma litið gerir fyrirtækið ráð fyrir því að verð á mörkuðum nái jafnvægi og er fyrirtækið að sögn Shirans í góðu ferli með viðskiptabönkum sínum varðandi framtíðarfjármögnun fyrirtækisins. Eigendur félagsins hafa líka nýlokið við fjármögnun til félagsins, sem styrkir skammtímastöðu félagsins.

Covid-19 hefur áhrif

Í fréttatilkynningunni frá félaginu sem Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish og Neil Shiran Þórisson, fjármálastjóri Arctic Fish undirrita segir um horfurnar á næstunni:

„Félagið gerir ráð fyrir því að annar eða þriðji ársfjórðungur ársins 2020 verði rekstrarlega erfiður vegna markaðsaðstæðna.  Félagið gerir ráð fyrir því að afkoma félagsins og afurðaverð lagist í fyrsta lagi undir lok þessa árs.  Í heildina þá mun fyrirtækið selja um 8 þúsund tonn af eigin eldisafurðum. Eldisfiski sem er búið að ala frá eggi upp í markaðsstærð og verja nú þegar yfir 70% af heildarkostnaði afurðanna.“

Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri

Óbreytt áform um uppbyggingu

Þrátt fyrir þessa miklu markaðsóvissu til skemmri tíma þá er áætlað að halda óbreyttum áformum um úsetningu seiða núna snemmsumars og fram á haustbyrjun. Þá er strax farið að huga að frekari framtíðaruppbyggingu og eru eigendur félagsins vongóðir um langtímahorfur og vöxt fyrirtækisins.