Alþingi: óskar eftir endurskoðun á grásleppukvóta

Atvinnuveganefnd Alþingis undir forystu Lilju rafneyjar Magnúsdóttur  hefur sent Sjávarútvegsráðherra bréf og óskað eftir því að hann fái Hafrannsóknarstofnun til þess að endurmeta grásleppukvóta ársins.

Vísar nefndin til mótmæla sambands sveitarfélaga á Vesturlandi sem vill endurskoðun á fjölda veiðidaga á þeim svæðum þar sem veiðar voru ekki hafnar að neinu ráði, þ.e. við Faxaflóa og Breiðafjörð. Einnig eru hörð mótmæli frá Stykkishólmsbæ með sömu kröfu. Þá er birt yfirlýsing fjögurra verkenda grásleppuhrogna sem áður hefur verið greint frá á Bæjarins besta, þar sem andmælt er forsendum Hafrannsóknarstofnunar um nýtingu fyrri ára, bréfi Landssambands smábátaeigenda og loks gagnrýni á forsendur ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar frá Bjarna Jónssyni, forstöðumanni Náttúrustofu Norðurlands vestra og Halldóri G. Ólafssyni framkvæmdastjórs Biopol ehf.

Velta þeir m.a. upp þeirri spurningu hvort litlar loðnuveiðar síðustu tvö ár hafi leitt til minni veiða á hrognkelsum og því kunni stofninn að vera sterkari.