455 m.kr.styrkur til útgerðar

Páll Pálsson ÍS fékk byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Úthlutað hefur verið sem byggðakvóta 1.679 tonn mælt í þorskígildum til byggðarlaga á norðanverðum Vestfjörðum til veiða á yfirstandandi fiskveiðiári.

Meðalverð á aflamarki í þorski á þessu ári frá áramótum til aprílloka er 271 kr/kg samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu.  Samtals hafa verið leigð 15,325 tonn af þorski fyrir 2,3 milljarða króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Mest er úthlutað til Flateyrar 478 tonnum, þá 365 tonnum til Þingeyrar, 239 tonnum til Súðavíkur, 207 tonnum til Hnífsdals, 200 tonnum til Suðureyrar og 190 tonnum til Ísafjarðar. Engu er úthlutað til Bolungavíkur. Byggðakvóta er úthlutað endurgjaldslaust. Heimilt er að leigja byggðakvóta með sömu takmörkunum og gilda um annan kvóta.

Ekki er búið að deila byggðakvótanum milli skipa og báta í byggðarlögunum.

Andvirði byggðakvótans er áætlað um 455 milljónir króna.

DEILA