Vísitölur fiska

Út er komin skýrsla Hafrannsóknunarstofnunar þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd og helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 27. febrúar til 20. mars 2020.

Stofnvísitala þorsks hefur lækkað síðustu þrjú ár, en er þó hærri en árin 1990-2010.
Vísitala ýsu hefur haldist svipuð frá árinu 2017 en vísitala ufsa hefur lækkað frá 2018 og er nú nálægt meðaltali rannsóknatímans.

Vísitölur gullkarfa, litla karfa og löngu eru háar miðað við síðustu þrjá áratugi, en lækkandi líkt og vísitölur flestra tegunda flatfiska og skötusels.
Vísitölur steinbíts og lýsu eru nú nálægt meðaltali tímabilsins, en stofnar keilu, hlýra og tindaskötu eru í sögulegu lágmarki.
Vísitala grásleppu hækkaði frá fyrra ári og er nú nálægt meðaltali áranna frá 1985.

Fyrsta mæling á 2019 árgangi þorsks bendir til að hann sé yfir meðalstærð.
Árgangar þorsks frá 2017 og 2018 mælast hins vegar undir meðallagi í fjölda.

Árgangur ýsu frá 2019 mælist mjög stór; stærsti árgangur ýsu frá árinu 2004 ef miðað er við mælingu 1 árs fisks.
Árgangar ýsu 2014-2017 mælast nálægt meðallagi, en þeir koma í kjölfar sex lélegra árganga. Árgangur ýsu frá 2018 er lélegur.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vef Hafrannsóknarstofnunar.

DEILA