Vigdís Finnbogadóttir níræð

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands er níræð í dag.

Vigdís var kosin fjórði forseti lýðveldisins í júní 1980 og gengdi embættinu til 1996. Hún var fyrsta konan sem kosin var í almennum lýðræðislegum kosningum sem þjóðhöfðingi.

Vigdís er fædd í Reykjavík 15.4. 1930. Vigdís varð stúdent árið 1949, stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum í Grenoble og við Sorbonne-háskóla í París 1949-1953. Hún nam leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1957-1958, tók BA-próf í frönsku frá Háskóla Íslands og próf í uppeldis- og kennslufræðum 1968. Vigdís er heiðursdoktor og heiðursprófessor við marga háskóla og stofnanir víðs vegar um heiminn.

Vigdís lagði áherslu á að vera ópólitískur forseti og forðaðist að blanda sér í deilumál á vettvangi stjórnmálanna. Í ræðum og ávörpum lagði hún áherslu á þau gildi sem sameina fólk. Skógrækt og landgræðsla voru Vigdísi ofarlega í huga og hún var ötull talsmaður landræktar. Á ferðum sínum um landið fékk hún börn og unglinga gjarnan til liðs við sig í gróðursetningu. Unga kynslóðin var henni hugleikin og í ræðum minnti hún oft á mikilvægi þess að hlú að æskunni og hvatti þá sem eldri eru til að vera góðar fyrirmyndir. Síðast en ekki síst lagði hún áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um íslenska tungu.

 

DEILA