Vestfirðir: atvinnuleysi 4,9% í mars

Atvinnuleysi á Vestfjörðum var tæplega 5% í marsmánuði. Þetta kemur fram í mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar. Þeir sem voru skráðir að fullu á atvinnuleysisskrá eru 3,3% af vinnuaflinu og atvinnuleysi þeirra sem eru á hlutabótum jafngildir 1,6%. Samanlagt er þannig reiknað atvinnuleysi 4,9% af vinnuaflinu á Vestfjörðum.

Er það næst lægsta atvinnuleysið á landinu. Það er aðeins lægra á Norðurlandi vestra, en það er það 4,3%.

Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum 14,3% og næstmest á höfuðborgarsvæðinu 9,6%. Meðaltalsatvinnuleysið  yfir landið er 9,2%, þar af 5,7% fullt atvinnuleysi.

Fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar að atvinnuleysi er mest og hefur aukist mest, á þeim landsvæðum þar sem vægi ferðaþjónustu er mikið.

Í öllum landshlutum, utan Vestfjarða og Norðurlands eystra, koma flestar umsóknir um hlutabætur  úr ferðaþjónustu eða verslun. Á Vestfjörðum eru fiskveiðar, -eldi og -vinnsla þeir þeir geirar sem flestir leita í úrræði úr, rúm 30% hlutabótaumsókna. Borist hafa 134 umsóknir um hlutabætur frá þeim sem starfa í fiskveiðum/eldi/vinnslu.  Frá iðnaði eru 78 umsóknir og 70 umsóknir frá verslunarstörfum.

Aldursdreifing umsóknanna á Vestfjörðum eru þannig að 28% eru frá fólki á aldrinum 18-29 ára, 23% eru á fertugsaldri og 22% á fimmtugsaldri. Er aldursdreifingin í samræmi við dreifinguna á landinu öllu.

33 þúsund manns hafa nú sótt um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli til Vinnumálastofnunar frá því að opnað var fyrri umsóknir þann 25. mars síðastliðinn

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!