Vestfirðir: 36 smitaðir af covid 19

Á Vestfjörðum eru í dag alls 345 einstaklingar í sóttkví. 219 manns hafa lokið sóttkví. Smituðum hefur fjölgað um 5 síðan í gær. Svipaður fjöldi smitaðra er í Bolungarvík og Ísafjarðarbæ, eða 18 í Ísafjarðarbæ og 15 í Bolungarvíkur. Einn einstaklingur er smitaður í Súðavíkurhreppi, í Strandasýslu og Reykhólasveit. Enginn er greindur smitaður í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá  aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum.

Ekki liggur fyrir nákvæmur fjöldi sýna í bið, en í dag voru tekin 21 sýni á norðanverðum Vestfjörðum sem eru á leið til Reykjavíkur með aðstoð varðskipsins Þórs, sem siglir með þau inn í Ísafjarðardjúp, til móts við björgunarsveitarmenn frá Hólmavík og aka þeim á móti aðila sem sér um að koma þeim til Veirufræðideildar Landspítala.

Í fréttatilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í dag kemur fram eru þrír íbúar á dvalarheimilinu Bergi í Bolungarvík greindir með covid-19 smit. Hlúð er sérstaklega að þessum veiku einstaklingum eins og kostur er. Af þessum sökum er töluverður fjöldi starfsmanna í sóttkví og hefur stofnunin auglýst eftir starfsfólki til afleysinga í þessum aðstæðum. Vísað er á netfangið hvest@hvest.is. Áfram eru aðrir átta íbúar í sóttkví og án einkenna.

Smitin áfall

„Aðgerðir og áherslur okkar og heilbrigðiskerfisins í heild hafa allar miðað að því að takmarka smit á hjúkrunarheimilum. Þessi þrjú smit eru því mikið áfall,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.