Varðskipið Týr komið til Reykjavíkur eftir eitt lengsta úthald hér við land hin síðari ár – Þór lónar í Djúpinu

Varðskipið Týr lagðist að bryggju í Reykjavík klukkan 10 í morgun eftir eina lengstu ferð varðskips hér við land hin síðari ár.

Þegar skipið hélt til eftirlits í byrjun mars var gert ráð fyrir því að skipið yrði á Íslandsmiðum í þrjár vikur, venju samkvæmt, en vegna aukinna varúðarráðstafana var ákveðið að lengja ferðir varðskipa Landhelgisgæslunnar til að tryggja að hægt væri að sinna órofnu eftirliti á hafinu umhverfis landið.

Thorben Lund, skipherra á Tý, segir ferðina hafa gengið vel og fjölbreytt verkefni komið á borð áhafnarinnar.

Við komuna til Reykjavíkur í morgun stillti áhöfnin á Tý sér upp fyrir myndatöku ásamt Jóni Marvin Pálssyni og Ragnari Marel Georgssyni, liðsmönnum, séraðgerðasveitar, sem tóku á móti skipinu á Miðbakka.

Varðskipið Þór lónaði í gær­dag á Ísa­fjarðar­djúpi, en í ör­ygg­is­skyni hef­ur skipið verið við Vest­f­irði síðustu tvær vik­ur. Síðdeg­is í gær var vind­ur í Djúp­inu 50-60 hnút­ar og skyggni sama og ekk­ert, en skjól og lít­ill sjór í mynni Jök­ul­fjarða og ná­kvæm­lega þar var Þór.

Á laug­ar­dag fór skipið inn til Ísa­fjarðar að sækja sýni vegna kór­ónu­veirunn­ar sem voru svo flutt á Arn­gerðareyri innst í Djúp­inu. Þar sigldi skipið eins nærri landi og kom­ist varð. Svo fór mann­skap­ur á létta­bát að bryggju þar sem björg­un­ar­sveit­ar­menn tóku á móti sýn­un­um, sem síðan voru flutt áfram suður til Reykja­vík­ur til frek­ari rann­sókna.