Thai Tawee opnar aftur

Matsölu- og veitingarstaðurinn Thai Tawee opnaði aftur á föstudaginn var. Staðnum var lokað þann 1. apríl þegar hert var á samkomubanni á norðanverðum Vestfjörðum.

Sigurður Bjarki Guðbjartsson, eigandi og framkvæmdastjóri sagði þá að hann hefði ákveðið að loka þar sem hann treysti sér ekki til þess að hafa opið áfram eftir að upp kom smit í Bolungavík á hjúrkunarheimilinu Bergi.

Sigurður Bjarki sagði nú í samtali við Bæjarins besta að tekist hefði að stöðva frekari smit og hann hefði því ákveðið að opna matsöluna. Hins vegar verður áfram lokað inn á veitingastaðinn um sinn.

Þegar Bæjarins besta var á ferð var mikil traffík og margir viðskiptavinir biðu afgreiðslu. Sigurður Bjarki sagði það hefði verið rífandi sala og lét hann vel af móttökunum.