smábátar: Súðavík og Vesturbyggð styðja Eldingu

Smábátaútgerð hefur löngum verið öflug frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ályktað um erindi frá smábátafélaginu Eldingu, sem er á norðanverðum Vestfjörðum. Elding er aðili að Landssambandi smábátaeigenda sem hefur  lagt til við Sjávarútvegsráðherra að vegna covid19 verði ákvæðum um strandveiðar breytt þannig að í stað þess að strandveiðar standi yfir í 4 mánuði – maí til og með ágúst og 48 veiðidagar skiptist jafnt á mánuðina verði dagarnir gefnir út til 12 mánaða.  Jafnframt að engar hömlur verði á því hvenær dagarnir verði nýttir en nú er einungis er hægt að nýta þá 4 daga í viku, mánudaga til fimmtudaga.

Sveitarstjórnin bókaði að hún tæki undir erindið og styddi tillöguna.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi einnig sama erindi á fundi sínum í lok marsmánaðar og líkt og sveitarstjórn Súðavíkur tók bæjarráðið undir tillögurnar.

„Vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru vegna áhrifa af Covid-19 skorar bæjarráð Vesturbyggðar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ákvæði laga um stjórn fiskveiða og reglugerða sem um strandveiði fjalla, verði rýmkaðar verulega. Bæjarráð Vesturbyggðar tekur undir áherslur í bréfi Landssambands smábátaeigenda dags. 27. mars 2020 og markmið þess að rýmka framangreindar reglur verði aukinn sveigjanleiki við nýtingu auðlindarinnar og þannig fáist sem mest verðmæti fyrir þann afla sem veiddur er.“

DEILA