sjávarútvegssveitarféög: fiskeldið styrkir byggðarlögin

Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga segir í nýlegri ályktun að fiskeldi hafi mikil efnahagsleg áhrif á Vestfjörðum og Austfjörðum og  leggur stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga mikla áherslu á að ríkisvaldið og stofnanir þess geri allt sem í þeirra valdi stendur til að jákvæðra áhrifa uppfærðs áhættumats Hafrannsóknarstofnunar fari að gæta sem fyrst, en stofnunin leggur til auknar heimildir til fiskeldis í nýju áhættumati sínu. Sérstaklega eru nefnd sem jákvæð áhrif aukin þjóðarframleiðsla sjálfbær byggðaþróun á landsbyggðinni.

Í stjórninni eru fimm fulltrúar sveitarfélaganna:

Baldur Smári Einarsson, Bolungarvík, Fannar Jónasson, Grindavík, Gauti Jóhannesson, Djúpavogi, Liv Aase Skarstad, Akraneskaupstað og Rebekka Hilmarsdóttir, Vesturbyggð.

Bókunin í heild:

„Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa markað sér stefnu í fiskeldi með það að
leiðarljósi að það njóti alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir sjálfbærni og metnað í
matvælaframleiðslu. Meðal þeirra markmiða sem stefnt er að er að styrkja
byggðamynstur með þeirri viðspyrnu sem sjálfbært fiskeldi veitir í atvinnu- og
efnahagslífi dreifðra byggða. Hafrannsóknastofnun kynnti nýlega uppfært
áhættumat á erfðablöndun. Stofnunin leggur til aukningu frá fyrra mati.
Hámarkslífmassi á Vestfjörðum verður samkvæmt ráðgjöfinni 64.500 tonn. Á
Austfjörðum er lagt til að hámarkslífmassi verði 42.000 tonn. Aukningin miðað við
nýtt áhættumat er 20% samkvæmt útreikningum Hafrannsóknarstofnunnar.

Engum dylst þau miklu efnahagslegu áhrif sem fiskeldi hefur haft á sunnanverðum
Vestfjörðum og Austfjörðum. Mikilvægt er að leyfisveitingar og umsóknarferli sé
skilvirkt og gagnsætt og byggi á bestu fáanlegu upplýsingum. Í ljósi þeirrar stöðu sem
nú er uppi í efnahagslífi þjóðarinnar leggur stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga
mikla áherslu á að ríkisvaldið og stofnanir þess geri allt sem í þeirra valdi stendur til
að jákvæðra áhrifa uppfærðs áhættumats fari að gæta sem fyrst. Með því móti gefst
einstakt tækifæri til að framfylgja stefnumótandi byggðaáætlun um fjölgun
atvinnutækifæra og styrkja enn frekar jákvæð áhrif atvinnugreinarinnar á
þjóðarframleiðslu og styðja við sjálfbæra byggðaþróun á landsbyggðinni.“

 

 

Stofnfundur samtakanna var 26. september 2012 og voru 24 sveitarfélög stofnaðilar að samtökunum. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu, og er tilgangur samtakanna að vinna að sameiginlegum hagsmunum aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í þeim málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.