Sandlóur á bakpoka ferðalagi um Evrópu

Sandlóa við Lissabon 7. mars 2020. Þegar vel er gáð þá má sjá dægurritan koma undan fjöðrunum á baki sandlóunnar.

Rannsóknasetur Háskólans á Suðurlandi einstaklingsmerkti 22 sandlóur í Bolungarvík, á Ísafirði og í Önundarfirði síðastliðið sumar í samvinnu við Náttúrustofu Vestfjarða.

Þessar sandlóur fengu dægurrita (e. geolocator) en þeir eru festir á bakið á sandlóunum með „axlarböndum“. Þessir ritar mæla birtutíma eða daglengd og út frá því má sjá hvar fuglarnir hafa verið. En það þarf að ná fuglunum aftur til að hlaða niður gögnunum og verður það verkefni næsta sumars.

Nokkrar sandlóur með þessa bakpoka hafa sést á ferðalagi sínu um vesturströnd Evrópu. Karlfugl frá Bolungarvík sást á Norður Spáni í ágúst og svipuðum tíma sást maki hans í Frakklandi.

Tveir fuglar hafa sést í árósum Tagus fljótsins við Lissabon 27. feb og 7. mars, annar er karlfugl frá Suðurtanga á Ísafirði en hinn er kvenfugl frá Holtsodda í Önundarfirði.

Fyrstu sandlóurnar koma um miðjan apríl en toppur er í komu þeirra í lok apríl eða byrjun maí. Það geta því verið um tveir mánuðir þangað til þessir fuglar koma á varpstöðvar.

DEILA