Ríkið tryggir þrjár flugferðir á viku til Ísafjarðar

Stjórnvöld hafa samið við flugfélagið Air Iceland Connect um reglulegar flugsamgöngur til Egilsstaða og Ísafjarðar til og með 5. maí nk. Hefðbundið innanlandsflug hefur dregist verulega saman vegna COVID-19 faraldursins og fyrir lá að flug á fyrrgreinda áfangastaði hefði að óbreyttu lagst af. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Samningurinn gerir ráð fyrir að farnar verði þrjár ferðir á viku milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og  3-6 ferðir vikulega milli Reykjavíkur og Egilsstaða.

„Innanlandsflug gegnir afar mikilvægu hlutverki fyrir íbúa landsbyggðarinnar og fá svæði verða fyrir meiri skaða af niðurfellingu flugs en norðanverðir Vestfirðir og Austurland. Á þessum svæðum er ekki val um almenningssamgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Innanlandsflug hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna við dreifingu lyfja og flutning á sýnum.

Samningurinn tók gildi þriðjudaginn 14. apríl og gildir til og með 5. maí nk. Ríkið mun greiða að hámarki 13 milljónir kr. vegna samningsins en mögulegar tekjur Air Iceland Connect af flugunum munu lækka greiðslur. Flugfélaginu er heimilt að annast vöruflutninga í ofangreindum ferðum.

Gerð var verðkönnun hjá þremur flugrekendum áður en gengið var til samninga við Air Iceland Connect.

DEILA