Ríkið boðar skerðingu á framlögum Jöfnunarsjóðs

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sendi 7. apríl töluvpóst til sveitarfélaganna og  gerði grein fyrir óvissu um tekjur jöfnunarsjóðs á árinu 2020. Boðaðar eru skerðingar á tekjum sjóðsins og þar með framlögum hans til sveitarfélaga.

Í pósti ráðuneytisins til Ísafjarðarbæjar segir:

„Þar sem mikil óvissa ríkir um áætlaðar tekjur í Jöfnunarsjóðs á árinu 2020 verður að framkvæma nýja greiðsluáætlun vegna framlaga ársins 2020. Ljóst er að tekjur sjóðsins muni lækka nokkuð í ár miðað við fyrri spár.

Þar sem erfitt er að spá fyrir um þróun skatttekna ríkissjóðs og útsvarstekna sveitarfélaga verður ekki unnt að gefa út nýja greiðsluáætlun fyrir sjóðinn vegna ársins 2020 fyrr en að nokkrum vikum liðnum. Í kjölfarið verða framlög ársins 2020 enduráætluð.“

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélag til Ísafjarðarbæjar eru áætluð 930 milljónir króna á yfirstandandi ár og er það um 20% af skatttekjum sveitarfélagsins. Til samanburðar má nefna að áætlað er að fjárfesta fyrir um 530 milljónir króna á árinu samkvæmt því sem fram kemur í fjárhagsáætluninni fyrir 2020.

 

DEILA