Reykhólar: sveitarstjórn klofnar og minnihluti verður til

Sveitarstjórn klofnaði í atkvæðagreiðslu um uppsögn Tryggva Harðarsonar, fráfarandi sveitarstjóra og ingimar Ingimarsson, varaoddviti og fyrrverandi oddviti lýsti því yfir að hann myndi hér eftir starfa í minnihluta. Ingimar segir í bókun að hann sé ósáttur við samráðsleysið í kringum uppsögn sveitarstjórans og segir það ekki byggja upp traust á nýjum oddvita. Þá efast hann um lögmæti uppsagnarinnar og segir engan rökstuðning fylgja henni.

Fjórir af fimm fulltrúum í sveitarstjórninni studdu tillögu oddvitans Árnýjar Huldar Haraldsdóttur um uppsögn sveitarstjóra sem tæki gildi um næstu mánaðamót, en að hann hefði ekki vinnuskyldu frá 15. apríl. Uppsagnarbréf var lagt fram og samþykkt. Það hefur ekki verið birt. Ákveðið var að auglýsa starfið og fela oddvita að gegna störfum sveitarstjóra þar til nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn.

Ingimar Ingimarsson óskaði eftir skýringum á ástæðum uppsagnarinnar, kostnaði við hana   og hvort leitað hafi verið eftir samningum við Tryggva Harðarson og fékk þau svör að um ólíka sýn á verkefni sveitarfélagsins hafi verið að  ræða. Þá segir í bókun oddvita.

„Sá sem stendur í brúnni verður að hafa fylgi sveitarstjórnar til að geta sinnt því starfi. Samkomulag um starfslok varð ekki, enn og aftur, vegna ólíkrar sýnar á verkefni sveitarfélagsins. Þar sem um pólitíska ráðningu er um að ræða þarf ekki að rökstyðja ákvörðunina frekar. Andamælaréttur á ekki við því Tryggvi er ekki sakaður um brot í starfi.
Kostnaður við sveitarstjóraskiptin verða tekin saman eins fljótt og hægt er og viðauki
tekinn fyrir á sveitarstjórnarfundi. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að aukinn
kostnaður falli á sveitarfélagið.“

Frávísunartillaga Ingimars var felld með fjórum atkvæðum gegn einu og lét hann þá bóka eftirfarandi:

„Undirritaður er mjög ósáttur við samráðsleysið í kringum uppsögn Tryggva
Harðarsonar sveitarstjóra Reykhólahrepps. Þetta er ekki til að bæta starfsandann í
sveitarstjórn eða byggja upp traust á nýjum oddvita. Hingað til hefur sveitarstjórn
staðið saman að flestum málum og undirbúið í sameiningu. Þar hefur gilt einu hvort
um er að ræða mál þar sem allir eru sammála eða ekki. Meirihlutinn virðist ekki ætla
að starfa eftir þessum háttum og er það miður.
Það er vægast sagt einkennilegt að meirihlutinn keyri málið fram að svo mikilli hörku
sérstaklega á þessum fordæmalausu tímum. Tímasetingin ein vekur furðu. Íslenskt
samfélag liggur á hlið vegna veirufaraldurs, kærufrestur vegna framkvæmdarleyfis
Vestfjarðarvegar 60 er í fullum gangi og kærur komnar og eiga eftir að koma,
samdráttur vegna covid 19 fyrirsjánlegur og Reykhólahreppur á mörkum þess að verða
neyddur til sameiningar vegna smæðar. Þessir yfirvofandi þættir og sú staðreynd að nú
er mitt kjörtímabil sveitarstjórnar, ættu að kveikja á viðvörunarbjöllum gagnvart öllum
stórum breytingum. Það að koma nýjum sveitarstjóra í starf er ærið verkefni og dýrt.
Betra hefði verið að leyta samkomulags við sveitarstjórann um starfslok hans enn að
æða fram með óundirritaðan starfslokasamning eins og birt var í gögnum fundarins.
Samkomulag er einmitt aðalatrðið í samningum, ef ekki er samkomulag þá er enginn
samningur, heldur ákvörðun annars aðilans. Í tilfelli stjórnvalds, sem sveitarstjórn er,
þá er það stjórnvaldsákvörðun og hana þarf að rökstyðja. Þess vegna efast ég um
lögmæti uppsagnarinnar enda fylgir henni enginn rökstuðningur og starfsmanni ekki
gefin réttur á andmælum eða honum vísað á andmælarétt sinn. Ég hef því engan
áhuga að fylgja meirihluta sveitarstjórnar Reykhólahrepps í þessari lögleysu, frekar en
öðrum lögleysum.
Það var með trú á samvinnu og sáttir að ég sættist á það að starfa sem varaoddviti.
Með þessum leik meirihlutans hefur sú trú brostið. Ég er því tilneyddur af
meirihlutanum að starfa að málefnum Reykhólahrepps í minnihluta. Ég lofa því að sá
minnihluti verður ákveðinn og fylgin sér gagnvart öllum málum sem tengjast
Reykhólahrepp.“