Ótrúleg matarsóun

Hver Íslendingur sóar 90 kg af mat árlega

Á síðastliðnu ári framkvæmdi Umhverfisstofnun ítarlega rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi, þar sem 90 heimili og 80 fyrirtæki tóku þátt.

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar má áætla að hver einstaklingur sói að meðaltali um 90 kg af mat árlega.

Íslensk heimili hentu að meðaltali um 20 kg af nýtanlegum mat á ári, 25 kg af ónýtanlegum matarafgöngum, 40 lítrum af drykkjum og 5 kg af matarolíu og fitu á hvern fjölskyldumeðlim.

Með öðrum orðum er áætlað að íslensk heimili hendi samtals 7.152 tonnum af nýtanlegum mat á ári hverju, um 9.130 tonnum af ónýtanlegum matarafgöngum, 14.670 tonnum af drykkjum og 1.840 tonnum af matarolíu og fitu.

Niðurstöður fyrirtækjarannsóknarinnar benda til að ríflega 22 kg af nýtanlegum mat, 3,6 kg af ónýtanlegum mat, 14,6 lítrum af drykkjum og 1,6 kg af olíu og fitu sé sóað á hvern íbúa árlega.

Dræm þátttaka framleiðslufyrirtækja í rannsókninni gerir það þó að verkum að niðurstöðurnar endurspegla bara neysluhlekk matvælakeðjunnar, þ.e.a.s. heild- og smásölu, veitingasölu og spítala og hjúkrunarheimili.

DEILA