Nýsköpunar- og þróunarverkefni ýtt úr vör á Flateyri

Í dag var undirritaður samningur milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðastofu um að ýta úr vör nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri, sem ætlað er að tryggja markvissa vinnu að framfaramálum á staðnum.

Heildarframlag ríkisins til verkefnisins er 78 milljónir kr.

Framlög ríkisins samkvæmt samningnum skiptast í fjóra hluta. Í ár verður framlagið 13 milljónir kr., árin 2021 og 2022 verður framlagið 26 milljónir kr. hvort ár og árið 2023 verður framlagið 13 milljónir kr.

Ein aðgerðin snýr að því að ráðist í nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri.
Ísafjarðarbær mun ráða verkefnisstjóra í fullt starf.
Leitað verður eftir því við Byggðastofnun að vera verkefninu til ráðgjafar og horft verður til reynslu og aðferðafræði í verkefninu Brothættar byggðir.

Samhliða verður komið á fót samkeppnis- og nýsköpunarsjóði sem getur tryggt mótframlag til nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna á Flateyri. Sérstakar reglur verði settar um úthlutun framlaga sem byggja á sambærilegum viðmiðunum og gilda um úthlutanir úr uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Ríkisstjórnin hefur falið þriggja manna verkefnisstjórn til að annast framkvæmd og eftirfylgni aðgerða á Flateyri í samræmi við tillögur starfshópsins. Í verkefnisstjórninni eru Pétur Berg Matthíasson, formaður, frá forsætisráðuneyti, Sólrún Halldóra Þrastardóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hólmfríður Sveinsdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

DEILA