Netverslun fer vaxandi – Margir hafa lent í vandræðum

Sex af hverjum tíu (59%) Íslendingum höfðu í byrjun árs 2019 verslað á netinu á síðustu þremur mánuðum en nærri átta af hverjum tíu á síðustu 12 mánuðum. Þegar horft er til annarra landa Evrópu var netverslun útbreiddust í Bretlandi og Danmörku en árið 2019 höfðu 87% Breta verslað á netinu á síðustu 12 mánuðum og 84% Dana.

Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri rannsókn Hagstofu Íslands á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og neti.

Meðal þeirra sem höfðu keypt vörur eða þjónustu á netinu á síðustu 12 mánuðum höfðu flestir, eða 78,6%, keypt tónlist og/eða kvikmyndir en 71,8% keypt aðgöngumiða á viðburði og 69,9% keypt farmiða, greitt fyrir bílaleigubíla eða annað ferðatengt. Fæstir höfðu keypt lyf, eða 12,4%, og 17,2% höfðu keypt matvæli eða hreinlætisvörur.

Árið 2019 lentu 76,8% þeirra sem versluðu í gegnum netið í einhvers konar vandræðum því tengdu. Það er hærra hlutfall en mældist árið 2017 þegar það var 66,7% og mun hærra heldur en árið 2009 þegar það var rétt innan við 10%. Áhugavert er að skoða þetta í samhengi við aðrar þjóðir Evrópu.1

Árið 2019 var Ísland í efsta sæti yfir hlutfall þeirra sem versluðu á netinu sem lentu í vandræðum við netkaup. Meðal þeirra vandamála sem spurt var um eru bilun í netkerfi vefverslunar, að varan berist kaupanda síðar en áætlað var, kostnaður sé hærri en áætlað var eða röng eða gölluð vara afhent.