Minni olíunotkun í sjávarútvegi

Olíunotkun í sjávarútvegi var rétt rúm 133 þúsund tonn á árinu 2019.
Það er minnsta notkun í greininni frá upphafi mælinga, sem ná aftur til ársins 1982 og þá fyrir daga kvótakerfisins.

Olíunotkun fiskiskipa nam 130 þúsund tonnum á árinu og dróst saman um rúm 4% frá fyrra ári. Samdrátturinn var öllu meiri í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja, eða 63%, en þar nam notkunin tæplega 3 þúsund tonnum.
Í heild nam samdrátturinn í greininni því 7% á milli ára. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Orkustofnun birti nýlega um olíusölu á árinu 2019.

Hlutdeild sjávarútvegs í olíunotkun hér á landi hefur skroppið verulega saman á undanförnum áratugum.
Á tíunda áratug síðustu aldar var hlutdeild sjávarútvegs í olíunotkun hér á landi að jafnaði rúmlega 42% en hefur á undanförnum árum verið í kringum 14%.

Samdráttur í olíunotkun í fiskveiðum hefur verið hlutfallslega langt umfram fækkun fiskiskipa samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands.
Frá árinu 1999 til ársins 2018 fækkaði fiskiskipum um tæp 20% en olíunotkun vegna veiða dróst saman um 44%.

Af þessu má vera ljóst að ný fiskiskip eru mun sparneytnari en þau sem eldri eru.

DEILA