Margrét II áttræð

Margrét II Danadrotting varð áttræð í dag og hafa verið umfangsmikil hátíðahöld á sjónvarpsrás DR1 í allan dag. Vegna aðstæðna eru hátíðahöldin mikið til rafræn.

Margrét, sem fædd er meðan Ísland var fullvalda ríki innan Danmerkur, fékk að sjálfsögðu íslenskt nafn og heitir fullu nafni Margrét Þórhildur.

Flateyringurinn Jón Svanberg Hjartason rifjar upp að Margrét hafi komið í opinbera heimsókn til Íslands 1998 og kom þá til Ísafjarðar í fylgd Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Jón Svanberg var þá lögregluþjónn og gegndi mikilvægi hlutverki við öryggisgæslu hennar hátignar.

Jón Svanberg birti á Facebook síðu sinni í dag skemmtilega mynd Halldórs Sveinbjörnssonar  frá heimsókninni til Ísafjarðar og segir myndina tekna seinni part dags þann 14. maí, sem reyndar er afmælisdagur Ólafs Ragnars.

Þar má sjá Margréti Þórhildi og Henrik prins á milli Ólafs Ragnars og Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur.

Ungi maðurinn lengst til hægri, sem varla er kominn af fremingaraldri er Flateyringurinn vaski í fullum lögregluskrúða.