Látrabjarg friðlýst

Bæjarstjórn Vesturbyggðar  hefur samþykkt fyrir sitt leyti að Látrabjarg verði friðlýst. Á síðasta fundi bæjarstjórnar voru kynnt drög Umhverfisráðuneytisins að friðlýsingarskilmálum. Bókað var að áformunum um friðun væri fagnað.

Friðlýsingin mun ná til Látrabjargs,  þ.e. Bæjarbjargs og hluta lands Hvallátra. Markmið með friðlýsingu svæðisins er að tryggja vernd fuglsins í bjarginu sem er viðkvæmur fyrir ágangi og truflun, nauðsyn á uppbyggingu innviða til að stýra umferð gesta og koma í veg fyrir skemmdir á gróðurþekju sem nú þegar er nokkur á svæðinu.

Í drögunum segir um svæðið m.a.:

„Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt
fuglasvæði. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar að finna fjölskrúðugt fuglalíf
sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði og búsvæðum fyrir fugla.  Á
svæðinu er mesta sjófuglabyggð landsins þar sem meðal annars er stærsta þekkta álkubyggð í heimi. Á svæðinu verpa fjölmargar tegundir fugla, þar á meðal tegundir sem flokkast sem ábyrgðartegundir Íslendinga og eru á válista og s.s. álka og lundi.“

Um markmið friðlýsingarinnar segir:

„Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og
búsvæði fugla, einkum varpsvæði sjófugla í einum mestu fuglabjörgum við Norður-Atlantshaf.
Friðlýsingunni er jafnframt ætlað að vernda og viðhalda náttúrulegu ástandi ásamt
mikilfenglegu landslagi frá sjávarmáli upp á hæstu brúnir. Friðlandið hefur mikið vísinda- og
fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Markmið með
friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á
búsvæði og afkomu varpfugla sem og að stuðla að fræðslu um fuglalífið í Látrabjargi.“

DEILA