Landvernd: engin leyfi fyrir auknu eldi 2018

Bygging ESA í Brussel.

Eftirlitsstofnun EFTA, sem heitir ESA, hefur gefið út álit til bráðabirgða um löggjöf sem sett var til að bregðast við því að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi starfsleyfi og rekstrarleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum úr gildi í byrjun október 2018.

Fyrirtækin höfðu fengið leyfin síðla árs 2017 og höfðu hafið útsetningu seiða í kvíar á grundvelli þeirra og eldið var hafið. Úrskurðarnefndin taldi að umhverfismatinu hefði verið áfátt þar sem áformað eldi í sjókvíum var ekki borið saman við landeldi, eldi í lokuðum kvíum og notkun á ófrjóum laxi. felldi nefndin leyfin úr gildi.

Alþingi brást við með því að setja lög sem heimiluðu ráðherra að gefa út leyfi til bráðabirgða meðan bætt væri úr eða farið með úrskurðinn fyrir dómstóla. Að öðrum kosti hefði Matvælastofnun verið skylt að stöðva starfsemi fyrirtækjanna sem tengdist umræddum leyfum og láta eyða seiðunum eða fiskinum.

Landvernd kærði lagasetninguna til ESA. Eftirlitsstofnunin er hluti af EFTA samstarfinu við Evrópusambandið , sem Ísland, Noregur og Lichtenstein standa að. Er ESA ætlað að tryggja að EFTA löndin framkvæmi tilskipanir Evrópusambandsins, sem hafa verið samþykktar að gildi í EFTA löndunum, á sama veg og í Evrópusambandinu.

ESA gerir ekki athugasemd við að sett séu ákvæði um viðbrögð til bráðabirgða með útgáfu leyfis við tilteknar aðstæður. En kemst að þeirri niðurstöðu, til bráðabirgða, að ákvæði nýju laganna séu ófullnægjandi þar sem ráðherra fékk leyfi til að gefa út bráðabrigðaleyfi og setja skilyrði án þess að nákvæmlega væri tilgreint í lagatextanum hvaða skilyrði það væru. Telur ESA að koma eigi fram að uppfylla eigi þá vankanta sem úrskurðarnefndin taldi upp. Þá sé heimild ráðherra ekki nægjanlega takmörkuð. Loks gerir ESA athugasemd við að ekki var heimilt að kæra bráðabirgðaleyfið og að réttur almenningssamtaka hafi þar með ekki verið virtur.

Er íslenska ríkinu gefinn kostur á því að bregðast við bráðabirgðaálitinu fyrir 20. júní næstkomandi.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar segir að almennt séð telji Landvernd að ekki eigi að rækta frjóan eldislax í opnum kvíum í sjó, sbr. ályktun aðalfundar frá 2017 og að eftirlit með mengandi starfssemi eins og fiskeldi verði að vera öflugt.

Hún segir að fiskeldisfyrirtækin hafi byrjað að ala seyði í janúar 2018 skv. leyfum til stækkunar þó þeim hafi verið ljóst að leyfi til þeirra hefðu verið kærð, og að góðar líkur væru á að þau yrðu felld úr gildi.  „Það er á ábyrgð þessara fyrirtækja að greiða úr þeim flækjum sem hljótast af því að þau fara of snemma af stað í eldið. Það hefði ekki verið hægt að ala seyðin sem leyfin til stækkunar náðu til út á eldri framleiðsluleyfin.“

DEILA