Landssamband veiðifélaga: laxeldi í Djúpinu hefur hörmulegar afleiðingar

Landssamband veiðifélaga hefur sent frá sér ályktun um slysasleppingar úr sjókvíum.

Rakin eru nokkur nýleg dæmi um göt sem hafa uppgötvast á sjókvíum í Dýrafirði og Arnarfirði þar sem lax er alinn og í regnbogasilungseldi í Ísafjarðardjúpi. Því til viðbótar hafi 800 tonn af eldislaxi drepist í kvíum í Arnarfirði í byrjun ársins. Á sama tíma sluppu yfir 200.000 laxar í Færeyju við svipaðar aðstæður segir ennfremur í ályktuninni.

„Þegar litið er til allra þessara atvika og annarra sem hafa átt sér stað á undanförnum árum er sorglegt að nýtt áhættumat fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna hafi verið knúið fram af sjávarútvegsráðherra og Alþingi. Áhættumat sem byggt er á ónógri reynslu af rekstri þessara fyrirtækja og afleiðingum fyrir náttúruna. Það er líka dapurlegt að nú eigi að opna fyrir eldi á frjóum norskum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi með þeirri ógn sem það hefur fyrir árnar þar og aðrar ár, t.d. í Húnavatnssýslunum þar sem margar af helstu laxveiðiám landsins eru.

Slysin munu halda áfram að eiga sér stað þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Það er vitað að þessar sjókvíar halda ekki fiski. Ef fyrirætlanir stjórnvalda um að stórauka laxeldi hér á landi og hleypa því inn í Ísafjarðardjúp mun það hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér.“

 

DEILA