Ísafjörður: Covid-19 sjúkraflutningur Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi

Frá sjúkrafluningnum í gærkvöldi. Mynd: LHG.

Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, flutti Covid-19 sjúkling frá Ísafirði til Reykjavíkur í gærkvöld. Þyrlan lenti á Ísafjarðarflugvelli rétt um kl 19.

Þetta var fyrsta sjúkraflug Landhelgisgæslunnar af þessum toga. Upphaflega stóð til að sjúkraflugvél annaðist flutninginn en sökum þoku reyndist ekki unnt að lenda á flugvellinum á Ísafirði. Því varð að kalla þyrlusveit Landhelgisgæslunnar út.

Töluverðan undirbúning þurfti fyrir flugið, meðal annars var sérstakt flutningshylki haft með í för til Ísafjarðar og farið ítarlega yfir alla verkferla.

Þegar þyrlan lenti á Ísafirði fóru þyrlulæknir og stýrimaður með hylkið á sjúkrahúsið og þurftu að klæðast hlífðarbúnaði áður en inn var haldið. Sjúklingurinn var undirbúinn fyrir þyrluflugið og færður yfir í flutningshylkið.

Hylkið er afar mikilvægt fyrir sjúkraflutning sem þennan því ef rétt er staðið að undirbúningi á engin smithætta að vera fyrir utan það. TF-GRO flutti sjúklinginn á Landspítalann í Fossvogi en þar lenti þyrlan á þyrlupalli spítalans á ellefta tímanum í gærkvöld.

DEILA