Ísafjarðarbær: hægt að fresta fasteignagjöldum

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag að heimila frestun  gjalddaga fasteignagjalda á þessu ári. Sjö gjalddagar af 10 eru ekki fallnir í gjalddaga og geta greiðendur sótt um frestun á þeim gjalddögum. Hægt verður að óska eftir að fresta einum eða fleirum gjalddögum fasteignagjalda. Beiðni um frestun gjalda viðkomandi mánaðar verður að berast í síðasta lagi 15 dögum fyrir eindaga.

Ekki kemur fram í samþykktinni hve lengi frestunin getur varað en bæjarstjóra var falið að koma með fullmótaðar aðgerðir við frestun gjalddaga fasteignagjalda fyrir næsta bæjarráðsfund og var bæjarráði falið fullnaðarvald við afgreiðslu þeirra.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir 2020 er gert ráð fyrir að fasteignaskattar skili 440 milljónum króna í tekjur. Heildartekjur eru áætlaðar 4.620 milljónir króna.

DEILA