Ísafjarðarbær: covid aðgerðir í undirbúningi

Fyrsta tillaga að beinum aðgerðum hefur verið lögð fram til samþykktar í bæjarstjórn en hún varðar möguleika á frestun gjalddaga fasteignagjalda á árinu 2020. Bæjarstjórnarfundur verður á morgun þar sem tillaga bæjarráðs um frestun gjalddaga fasteignagjalda 2020 verður afgreidd.

Fyrir bæjarstjórnina verður einnig lögð önnur tillaga bæjarráðs um  tímabundna lækkun gjaldskráa í leikskólum, grunnskólum og dægradvöl vegna skertrar þjónustu sökum aðgerða vegna COVID-19.

Tinna Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að verið sé að skoða fleiri mögulegar aðgerðir á öllum sviðum sveitarfélagsins og verða þær kynntar þegar þær liggja fyrir.

Bæjarfulltrúar Í listans leggja til að unnin verði markviss aðgerðaráætlun til að koma til móts við þarfir íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu í ljósi þess mikla vanda sem COVID-19 faraldurinn hefur í för með sér.

Í tillögu þeirra segir. „Markmið aðgerðaráætlunarinnar verði að tryggja velferð íbúa og afkomu þeirra og vernda grunnstoðir samfélagsins eins og kostur er. Til hliðsjónar verða hugmyndir og ábendingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem bárust sveitarfélögum þann 19. mars sl., ásamt aðgerðum ríkisstjórnar Íslands vegna COVID-19 faraldursins.
Jafnframt verði bæjarstjóra, í samstarfi við fjármálasvið sveitarfélagsins, falið að vinna sviðsmyndir um mögulegar efnahagslegar afleiðingar faraldursins á fjárhag sveitarfélagins.“

Tillagan verður rædd á bæjarstjórnarfundinum á morgun. Fundurinn verður haldinn með  fjarfundarbúnaði. Ekki verður boðið upp á beina útsendingu af fundinum en upptaka verður aðgengileg að fundi loknum og mun birtast með fundargerð.

 

 

DEILA