Hvalárvirkjun: næsta skref að ljúka rannsóknum og skipulagsvinnu

„Við erum auðvitað ánægð með úrskurðinn“ segir Birna Lárusdóttir upplýsingafulltrúi Vesturverks ehf sem stendur að áformum um Hvalárvirkjun.

Á föstudaginn úrskurðaði Úrskurðarnefnd um umhverfis og upplýsingarmál um tvær kærur varðandi vegagerð vegna rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði. Féllu báðir úrskurðirnir Vesturverki og Árneshreppi í vil. Eftir dóm Landsréttar í mars í tveimur öðrum kærumálum virðist sem rutt hafi verið úr vegi öllum kærumálum frá síðasta ári sem fram komu gegn Hvalárvirkjun. Úrskurðarnefndin á eftir að afgreiða nokkrar kærur um sama efni og Landsdómur tók á og að mati lögfræðings, sem Bæjarins besta hefur leitað til, mun sá dómur ráða því hvernig úrskurðarnefndin afgreiðir þau mál.

„Hvað varðar sumarið þá verður unnið að frekari rannsóknum í vor og sumar ásamt því að áfram er unnið að seinni hluta skipulagsbreytinga vegna Hvalárvirkjunar. Aðrar framkvæmdir verða í lágmarki þar til vinnu við skipulagsbreytingar er lokið.“ segir Birna.

Hún bætti því við að talið er æskilegt að vinna þær breytingar samhliða og í takti við skipulagsvinnu Landsnets en í undirbúningi af hálfu Landsnets eru bæði tengipunkturinn í Djúpinu og flutningsleiðir frá honum yfir á meginflutningskerfið.