Hjukrunarheimilið Berg: staðan er alvarleg

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að staðan á Hjúkrunarheimilinu Bergi sé alvarleg. Eitt smit vistmanns hefur verið staðfest. Fyrr í dag voru fréttir um þrjú smit en það er ekki rétt. Hins vegar eru sýni úr tveimur vistmönnum í rannsókn og þeir eru í einangrun. Átta heimilismenn eru í sóttkví, samtals ellefu manns.

Gylfi Ólafsson segir „við verður að tryggja öryggi sjúklinga.“ Hann segir samhug og samstöðu ríkja innan stofnunarinnar en því sé ekki að neita að staðan er alvarleg. „Við erum búin að missa stóran hluta starfsmanna í sóttkví.“ Alls eru 17 starfsmenn í sóttkví.

Til viðbótar eru starfsmenn á Bóli einnig í sóttkví. Ból er heimili fyrir fatlað barn sem rekið er í húsnæði sem samtengt er Bergi. Starfsfólk hefur verið flutt eftir föngum af öðrum deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til aðstoðar. Þá hefur verið kallað á fólk úr bakvarðasveitum og von er á fólki í dag frá öðrum landshlutum. Verulegt álag er á starfsmönnum á heimilinu og frekari þörf fyrir vel þjálfað starfsfólk á næstu dögum og vikum.

Aðspurður hvernig þetta gat gerst þrátt fyrir hertar reglur fyrir nokkru svarar Gylfi að skýringin sé sú hvað veiran sé lúmsk. Mikilvægt er að fara eftir öllum leiðbeiningum yfirvalda. Gildir það bæði um almenning og heilbrigðisstarfsfólk. Enn frekar hefur verið hert á smitgát á Bergi vegna þessa ástands, sem og í sambyggðum þjónustuíbúðum fyrir aldrað fólk.

Sýni úr íbúum í einangrun, starfsmönnum og almenningi eru á leið til Reykjavíkur til greiningar. Tölurnar breytast mjög fljótt, en nú bíða 75 sýni greiningar, þar af 50 sem tekin voru í dag. Staðfest smit eru nú 27. Um fjórðungur Bolvíkinga er nú í sóttkví.