Háskólinn á Bifröst með nám fyrir alla í sumar

  • Háskólinn á Bifröst hefur brugðist við ósk menntamálaráðherra um sumarnám í háskólum og býður upp á sumarnámskeið fyrir alla landsmenn.

Í fréttatilkynningu frá Háskólanum á Bifröst segir að Háskólinn á Bifröst bjóði upp á  nám á sumarönn frá 18. maí til 3. júlí.  Sumarnámskeiðin verða opin fyrir aðra en nemendur skólans og mögulegt verður að hefja formlegt nám í skólanum á sumarönn, bæði í háskólanámi og í Háskólagátt. Allt nám í Háskólanum á Bifröst er kennt í fjarnámi.  Kennsla á sumarönn í Háskólanum á Bifröst hefur verið mikilvægur þáttur í skólastarfinu sem hefur gefið nemendum skólans í grunnnámi færi á að ljúka námi á styttri tíma.

Menntamálaráðherra hefur nú kallað sérstaklega eftir því við háskóla landsins að nemendum verði gefinn kostur á námi í sumar vegna fyrirséðra erfiðleika í atvinnulífinu. Hægt  verður að innritast formlega í grunnám, meistaranám eða Háskólagátt strax á sumarönn og hraða þannig námsframvindu eins og við getur átt.

Námskeið kennd í grunnnámi eða meistaranámi gefa ECTS einingar í háskólanámi og námskeið í Háskólagátt gefa FEIN einingar í framhaldsskólanámi.  Allar þessar einingar í námi á Bifröst má flytja milli skóla eftir því sem tilheyrir hverri námsgrein og samkvæmt reglum viðkomandi skóla um mat á námi úr öðrum skólum. Þannig geta námsmenn í öðrum skólum hraðað námsframvindu sinni með námi á sumarönn á Bifröst.

Námskeið í Háskólanum á Bifröst eru í viðskiptafræði, lögfræði og félagsvísindum og skólinn er viðskiptaháskóli.  Háskólagáttin býður upp á aðfararnám á framhaldsskólastigi fyrir þá nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi til inngöngu í háskóla.

Námskeiðin á sumarönn hafa fyrst og fremst verið valnámskeið í grunnnámi og viðbótarnámskeið í Háskólagátt til að uppfylla sérstakar kröfur í stærðfræði, íslensku eða ensku.  Í sumar verður bætt við fleiri valnámskeiðum í grunnnáminu, ný valnámskeið boðin fram í meistaranáminu og sérstök námskeið verða í boði fyrir nemendur sem vilja hefja nám í Háskólagátt.  Einstök námskeið eru kynnt sérstaklega á heimasíðu Háskólans á Bifröst og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um námið.  Opið er fyrir umsóknir vegna sumarannar fram til 4. maí.  Umsóknafrestir fyrir haustönn eru 20. maí í meistaranámi og 15. júní í grunnnámi og Háskólagátt.

Nánari upplýsingar veitir

Dagný Kristinsdóttir, Framkvæmdsstjóri kennslu og þjónustu
e. kennslustjori@bifrost.is | s. 433 3002 | bifrost.is/sumarnamskeid2020

DEILA