Harpa er komin með sólskin og sumar

Dýrafjörður. Myndin er tekin á Jónsmessu 2015. Frá Bergi Torfasyni.

Sumardagurinn fyrsti er í dag og segja má að vel viðri á Vestfirðinga, nokkur hlýindi, sól og vorvindur.

Bæjarins besta sendir lesendum sínum bestu óskir um gleðilegt sumar  og birtir nýtt ljóð um sumarkomuna eftir Dýrfirðinginn Berg Torfason frá Felli, sem hann nefnir tveir gestir:

 

Á ljórann minn guðaði gestur i nótt,
og ég gætti að hver þar væri í förum,
en gráklæddur öldungur gekk þar um hljótt,
hann glotti og varð fyrir svörum.
„Ég kom bara til þess að kveðja „ hann sagði,
„ ég kem ekki aftur fyrr en í haust“
og aftur hann hvarf svo á auga bragði,
já, út fyrir hornið þar veturinn skaust.

Ég vaknaði að morgni er sólin mig seiddi,
og svolítil austræna gældi við kinn,
og úti var „stúlka“ sem innkomu beiddi
ég eigi var seinn að leiða hana inn.
Hún Harpa var komin með sólskin og sumar
og sagði að nú færi snjórinn á braut,
og á fjölmörgum öðrum fréttum hún lumar,
því fagurgræn verða hver brekka og laut.

 

DEILA