Hæstiréttur: vísar frá máli gegn laxeldi

Laxakvíar í Reyðarfirði. Mynd: lf.is

Hæstiréttur staðfesti 31. mars 2020  niðurstöðu Landsréttar og Héraðsdóms um frávísun á máli sem Náttúruvernd 2 málsóknarfélag höfðaði á hendur Matvælastofnun og Löxum fiskeldi ehf. Krafðist málsóknarfélagið þess að ógilt yrði rekstrarleyfi frá 2012fyrir 6.000 tonna eldi  sem Laxar fiskeldi fengu til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði.

Er málshöfðunin ein af nokkrum sem efnt hefur verið til í því skyni að koma í veg fyrir laxeldið í sjó. Aðilar að málsóknarfélaginu eru eigendur veiðiréttinda í laxveiðiám í Breiðdal og Vopnafirði.

Of langt frá

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að Náttúruvernd 2 gæti ekki reist heimild sína til höfðunar máls til ógildingar á umræddu starfsleyfi á reglum grenndarréttar þegar litið til þess hversu langt laxveiðiár þær sem um ræddi í málinu væru frá sjókvíaeldinu í Reyðarfirði, miðað við ákvæði reglugerðar nr. 105/2000.

Reglugerðin fjallar m.a. um varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Þar segir að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skal miða við, að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði s.l. 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skal fjarlægðin vera 15 km.

Er fjarlægðin frá Breiðdal og Vopnafirði að laxeldinu í Reyðarfirði meiri en þar er tiltekið.

Hæstiréttur tiltekur einnig að sækjendur hefðu ekki sýnt fram á að hafa orðið fyrir tjóni af völdum laxeldisins og hefðu því ekki uppfyllt skilyrði um lögvarða hagsmuni sem væri nauðsynlegt til þess að geta höfðað málið.

Þar sem hvorki grenndarréttur né tjón væri fyrir hendi var frávísun málsins á fyrri dómstigum staðfest.

Dómur þessi þrengir verulega möguleika veiðiréttareigenda í laxveiðiám til þess að höfða mál á hendur laxeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum og krefjast ógildar á útgefnum rekstrarleyfum.

DEILA